20.6.2007 | 15:03
Síðasta vika...
Nýliðin vika var frábær tilbreyting í mitt annars tilbreytingasnauða líf. Vinkona mín Shamsi var hjá mér frá mánudegi til laugardags, og þrátt fyrir að hafa verið að vinna 8-4 allan tímann náðum við þó að kynnast svolítið betur og hafa skemmtilegt. Shamsi náði að hitta flesta bahá'íana sem eru á svæðinu (ekki erfitt þar sem Mörtufjölskylda spannar nánast helminginn).
Fyrsta daginn hérna hitti hún unglingana á svæðinu og kynnti fyrir þeim gildi og mikilvægi pílagrímsferðar til Haifa (nokkuð sem allir bahá'íar reyna að gera a.m.k. einu sinni á æfinni). Þau eru einmitt að safna sér pening til að geta farið í þriggja daga pílagrímsferð.
Á öðrum degi gerðum við ósköp lítið.. elduðum mat og horfðum á sjónvarpið. Það var frekar lítið fútt í mér fyrstu dagana, var að byrja á nýju lyfi sem hefur róandi áhrif og var ég sem rotuð...
Miðvikudagskvöldið var mjög skemmtilegt. Við byrjuðum á að fara út að borða á Greifann í boði Shamsi. Ég fékk svo barnapíu og við fórum á bæna- og hugleiðslukvöld til Böðvars og Elsu, þó þau hafi nú ekki verið heima. Þar hittum við fullt af fólki, þar á meðal Bacman Ebrahami, ferðakennara. Bacman er fæddur og uppalinn í Íran, fór í skóla á Indlandi og býr nú í Texas. Einhverra hluta vegna töluðum við Shamsi nánast bara við hann allt kvöldið, án þess þó að ætla okkur að útiloka aðra. Frásagnir hans eru mjög hrífandi og hann segir mjög skemmtilega frá. Umræðuefnin fóru út um víðan völl... allt frá ágæti Íslands og því hversu vingjarnlegir Íslendingar eru (að hans sögn), að líkingum milli íslenskra og persneskra hefða og svo að ástarmálum.
Á fimmtudaginn fór Shamsi á Mývatn, ég notaði bara tímann til að þrífa heima. Við elduðum okkur léttan kvöldmat og horfðum svo saman á Down With Love.
Föstudagurinn...hmm.... jú, alveg rétt. Við fórum í sund og þar var veskinu hennar Shamsi stolið. Það fannst svo seinna um kvöldið, sem betur fer, en kortin hennar voru því miður horfin. Þrátt fyrir að hafa brunað heim til að loka kortunum var samt búið að taka út tvær færslur af kortinu. En, hún á víst að fá þetta bætt.
Laugardagurinn... loksins fengum við smá tíma saman að degi til. Við byrjuðum á að fara niður í sundlaug og sækja veskið hennar og bruggðum okkur svo á Glerártorg þar sem ég verslaði mér einn bol. Svo fengum við okkur brunch í Bakaríinu við brúna, spjölluðum við nokkra mótorhjólatöffara (bærinn enda fullur af þeim vegna 17. júní) og báðum þá að taka myndir af okkur saman (ég þarf að biðja Shamsi um að senda mér myndir svo ég geti skellt þeim inn). Að lokum keyrði ég hana út á flugvöll þar sem við sátum og spjölluðum þar til flugvélin átti að fara. Ég var við það að troða mér (og Alexöndru) ofaní tösku hjá henni til að geta farið með, en vildi ekki láta hana borga yfirvigt þar sem hún var ekki með neinn pening á sér...
Allavega, við Alexandra söknum hennar og hlökkum til að sjá hana aftur.
Ps. Blogg verður birt á ensku á hinu blogginu mínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.