Framkoma og framsetning

Ég hef svolítið verið að spá í framkomu og framsetningu síðustu vikurnar. Afhverju er það að maður tekur ósjálfrátt mark á sumu fólki um leið og það opnar munninn, en aðrir verða þess valdandi að maður fer ósjálfrátt að hugsa um hvað sé til í ísskápnum heima og hvort maður þurfi að koma við í búð á leiðinni heim?

Framkoma og framsetning er galdurinn. Þetta er kannski ekki ný eða merkileg uppgötvun hjá mér, allavega kannski ekki fyrir almenning, en þetta skiptir máli fyrir mig. Undanfarið hef ég verið að tjá mig á spjallvef, undir nafnleynd eða nikki. Fyrst um sinn hafði ég hægt um mig og gerði það sem ég geri vanalega þegar ég er í stórum hópi af fólki - segi lítið og hlusta þeim mun meira. Mér fannst það góð æfing að tjá mig á blogg, en sumir hlutir í mínu lífi eru þess eðlis að mig langar ekki til að deila þeim með neinum nema mínum nánustu.

Þess vegna finnst mér gott að geta tjáð mig undir nafnleynd á umræddum spjallvef. Ég hef verið að æfa mig í því að setja fram mínar skoðanir og vera óhrædd við að fá á mig gagnrýni. Þessi hræðsla mín við gagnrýni, að vera álitin vitlaus,  hefur litað svolítið mína persónu. En ég veit að ég hef ýmislegt fram að færa. Ég er ekki að segja að ég sé eitthvað gáfuð, heldur hef ég margt til málanna að leggja.

Með þessum æfingum mínum hefur mér tekist að fanga athygli sumra sem eru virkir á þessu spjalli, athygli á þann hátt að ég er búin að eignast nokkra net-vini. Ég er búin að setja mitt mark á vefinn, allavega í sumum  umræðum.

Næsta skref er að æfa sig í að hafa skoðanir utan net-heima, þó þær kannski stangist á við skoðanir almennings. Ég verð að sætta mig við að ég á ekki eftir að fá alla til að vera sammála mér, og það er ekkert hræðilegt við það. Ég er ekkert verri manneskja fyrir vikið þó mér takist ekki að gera öllum til hæfis.

 

Og hana  nú! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband