Eleanor Rigby

Ögn snerting skinn við skinn,

létta stroku á kinn.

 

Ég er búin að vera utan netheima núna í rúma tvo mánuði, smá "listamannspásu" ef svo má að orði komast. Það er góð tilbreyting. Á þessum tímum bloggs og tölvuleikja færast tölvutengd hegðunarvandamál í aukana. Þetta er kannski tvítekning hjá mér, en mikilvægt engu að síður. Meiri og meiri tími fer í það að góna á tölvuskjáinn, við eigum samskipti við vini okkar og fjölskyldur í gegn um MSN, Skype og fleiri forrit. Í sjálfu sér er það mjög gott ef maður býr langt frá fjölskyldunni, en svolítið sorglegt þegar maður heyrir af ungu pari sem situr í sitthvoru herberginu í sömu íbúðinni, við sitthvora tölvuna, í tölvuleikjum, blogga eða að hanga á spjallsíðum og í stað þess að kalla á milli herbergja, eða þá standa upp og fara yfir í hitt herbergið, að tala þá frekar saman á MSN.

 

Mér þætti fróðlegt að sjá langtíma rannsóknir um skaðsemi tölvu og sjónvarps. Nú nýlega var í fréttum að áhorf á sjónvarp er óhollara en áður var talið, fyrir bæði börn og fullorðna. Tölvur eru búnar að vera styttra á markaðnum, en ég er sannfærð um að niðurstöður úr slíkum rannsóknum yrðu ekki fallegar. Fólk einangrast, finnur til meiri einmanaleika (sem skv. heilsusálfræðinni er einn af stærstu streituvöldunum, sem er svo stór ógn við andlega og líkamlega heilsu... jafnvel banvæn... hver man ekki eftir Eleanor Rigby?) og unglingar sturlast.

 

Ég geri mér grein fyrir því að þessi skrif eru frekar einhliða, auðvitað er hægt að finna ótalmargar jákvæðar staðreyndir um tölvur... en við skulum ekki gleyma því sem er mikilvægast í þessu samhengi. Við sjálf. Ég mæli með því að fólk standi upp korteri fyrr en það ætlaði, bara til þess að knúsa börnin, makann eða foreldrana... eða bara vini og ættingja. Þeir allra hugrökkustu geta faðmað ókunnuga á strætóstoppistöð, viðskiptavini eða hvern sem er.

 

Í lokin: Um daginn vorum við dóttir mín (3 og hálfs árs) að skoða myndir. Þegar kom að mynd af stelpu sem heitir Shamsi stoppaði dóttir mín mig og spurði hvað hún héti. Ég svaraði henni náttúrulega og endurtók nafnið nokkrum sinnum og hvatti hana til að prófa. Auðvitað gerði hún það með glæsibrag... strauk mér svo um kinnina og sagði: Mamma, þú kennir mér allt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband